HEIMSMYNDIR, MANNLÍFSMYNDIR, SJÁLFSMYNDIR
Í ár komu út um það bil 30 ljóðabækur eftir konur og kennir þar ýmissa grasa. Hér á Skáld.is hafa birst ritdómar um nokkrar þeirra: Bakland eftir Hönnu Óladóttur, Flagsól eftir Melkorku Ólafsdóttur og Hlíf Unu Bárudóttur, Að innan erum við bleik eftir Solveigu Thoroddsen, Fegurðin í flæðinu eftir Ester Hilmarsdóttur, Þú eftir Höllu Gunnarsdóttur, Til minnis eftir Áslaugu Jónsdóttur, Til hamingju með að vera mannleg eftir Sigríði Soffíu Níelsdóttur, Þar sem malbikið endar eftir Magneu Matthíasdóttur og Skáldreka eftir ýmsa höfunda af erlendum uppruna.
Gaman væri að rýna fleiri þeirra og kannski verður það gert síðar þegar tími gefst til. Fyrir fjórum árum rýndi Soffía Auður Birgisdóttir í nokkrar ljóðabækur kvenna sem komu út það ár en þá þegar var það blómaskeið sem nú ríkir í ljóðlist kvenna hafið. Hér á eftir fer greinin sem birtist fyrst í Stundinni 29. nóvember 2019.
Heimsmyndir, mannlífsmyndir, sjálfsmyndir
Það kemur eflaust fáum á óvart að hamfarahlýnun af manna völdum hvílir þungt á skáldum, ekki síst á því skáldi sem er höfundur orðsins „hamfarahlýnun“. Steinunn Sigurðardóttir (f. 1950) heldur upp á hálfrar aldar skáldskaparafmæli sitt á þessu ári og í ljóðabókinni Dimmumót yrkir hún um Vatnajökul í fortíð, nútíð og framtíð. Dimmumót skiptist í sjö hluta. Í fyrsta hluta hittir lesandinn fyrir „stelpuna“ sem á örugga æsku og glaða, ekki síst í „pabbasveit með jökli“ þar sem hún gengur „dagdraumaleiðina“ með kýrnar“ og yfir sveitinni ríkir „Hvítagullfjallið ofar öllu“. Strax í þessum fyrsta hluta birtast þó váboðar því það gleymdist að jökullinn „er úr vatni gerður // að hann leysist upp í það // og flæðir yfir veg allrar veraldar“. Við berum sökina; erum „Misindismenn. / Við óvitar // sem köllum okkur þó homo sapiens“:
Við vitiborin skiljum þá hamfarahlýnun á jörðinni
en við látum ósköpin yfir ganga
börnin og barnabörnin. Krúttin á facebook.
Hvað verður um þeirra krútt og þeirra krúttkrútt?
Í næstu sex hlutum bókarinnar þyngist tóninn og efniviður flestra ljóðanna tengist Vatnajökli á einn eða annan hátt; ort er um ísfjallið sem rambar á brún eyðingar, um ferð sjö kvenna á jökul, um mismunandi viðhorf íbúa í nærliggjandi sveitum, um fegurðina í fortíðinni og óttann sem fylgir tilhugsuninni um hverfandi ísinn. Ljóðmælandi harmar að kunna ekki „að gala galdur“ svo hún fái reist „við mergsogna móður“ og spyr: „Hvers-lendingar verðum við þá Íslendingar svokallaðir / þegar jökullinn fer?“ Það er sterk og áleitin rödd í Dimmumótum Steinunnar Sigurðardóttur, bókin kallast á við Um tímann og vatnið eftir Andra Snæ Magnason og fer vel á að lesa bækurnar tvær saman.
Eyrún Ósk Jónsdóttir (f. 1981) yrkir líka um heimsvandann í þriðju ljóðabók sinni Mamma, má ég segja þér? Fyrsti hluti ljóðabókarinnar kallast Stríð, friður og skæru-velgjörðir og er helgaður þeim miklu ógnum sem steðja að mannkyni. Hér er ekki bara ort um loftslagsvá og plastmengun, heldur einnig um flóttafólk og drukkandi börn, um hörmulegar afleiðingar stríðs og ofbeldis. Skáldið hvetur okkur til að „heyra ungar raddir“ barnanna sem við höfum brugðist og sem „segja okkur til syndanna“ og spyr: „Getum við bara sammælst um / að vera góð við börn?“ og hvetur til „hjartabyltingar“ og „skæru-velgjörða“. Í öðrum hluta bókarinnar, Berum kærleikanum vitni, yrkir skáldið fagnaðarerindi um náttúruna og kærleikann. Þriðji og síðasti hlutinn, Silfurbjöllur og regnbogar, er einn óslitinn ástaróður þar sem bæði er ort um erótíska ást og ástina á milli móður og barns. Þrátt fyrir dökka byrjun er heildaryfirbragð bókarinnar því jákvætt og bjart og að því leyti er þessi bók Eyrúnar Óskar mjög ólík síðustu bók hennar, Í huganum ráðgeri morð, sem miðlaði þyngra andrúmslofti þar sem húmor og írónía léku stór hlutverk.
Tært og kalt
Gerður Kristný (f. 1970) sendir frá sér níundu ljóðabók sína, Heimskaut. Titillinn vísar hvort tveggja til samnefnds ljóðs í bókinni þar sem ort er um myrkrið og ljósið sem megnar að leiða ljóðmælandann „yfir / úfna depurðina“. Ljóð Gerðar Kristnýjar eru meitluð og einkennast af fáguðu, gjarnan stuðluðu, ljóðmáli og víða bregður fyrir skemmtilegu óreglulegu rími, oft í upphafi ljóðlína: „Hvæsið / æsir hestana“, „Sendum af elju / fjendur til Heljar“. Síðustu þrjár ljóðabækur Gerðar Kristnýjar, Blóðhófni (2010), Drápu (2014) og Sálumessu (2018), mætti skilgreina sem þríleik um kynferðislegt ofbeldi en hér er efniviðurinn sundurleitari og skáldið sækir sér yrkisefni úr ýmsum áttum, til fornbókmennta, til umhverfis og staða sem hún hefur heimsótt, til náttúrunnar og til sögulegra atvika eins og ferð Franks Hurley á Suðurpólinn. Líklega er Gerður Kristný einn mesti fagurkeri íslenskrar samtímaljóðlistar; hið knappa ljóðmál hennar er tært, djúpt og kalt og höfundareinkennin sterk. Aðdáendur Gerðar verða varla sviknir af ljóðum þessarar bókar.
Spunnið úr hversdagslífinu og undrum veraldarinnar
Þórdís Gísladóttir (f. 1965) heldur áfram að rýna í hversdaglífið í fimmtu ljóðabók sinni, Mislægum gatnamótum. Í ljóðum bókarinnar birtist árekstur glansmynda sjónvarpsþátta, bíómynda og tilbúinna birtingarmynda skjámiðla við hvunndaginn, til dæmis við líf miðaldra konu sem „er ekki glæsileg fasteign / býr ekki yfir gamaldags sjarma / eins og áhugaverð íbúð í Þingholtunum.“ En þótt í einu ljóðanna sé fullyrt að orðið „fjölskyldulíf“ beri „með sér andblæ borgarastríðs / þar sem barist er með ryksugu, klósettbursta og Ajax-brúsa“ þá er í öðru ljóði áréttað að ljóðmælandi „myndi svo sem afþakka skipti / á hvunndegi / og draumum / stæði til boða að velja“. Það er húmor í ljóðum Þórdísar sem tekst með ágætum að skyggnast undir yfirborð hlutanna.
Undrarýmið eftir Sigurlín Bjarneyju Gísladóttur (f. 1975) kom út á vormánuðum og þar fer skáldið með lesendur í ferðalag inn í hin mörgu undrarými sköpunar. Ljóðin kallast á við myndir „úr aldagömlum ritum um náttúrufræði og læknisfræði“ sem prýða bókina og gera hana einstaklega fallega. Í ljóðum Sigurlínar Bjarneyjar kemur glöggt fram hvernig sköpunargleðin nærist á undrum veraldarinnar og verða kveikja nýrra hugsana. Skáldið fangar fögnuðinn yfir furðum lífsins og tekst með eindæmum vel að miðla nýstárlegum hugmyndum ofnum úr „skurðspunkti sköpunar“ sem felst í „togstreitu, spennu og núningi“. Ljóð Sigurlínar Bjarneyjar eru margræð og þola vel endurtekinn lestur.
Upphaf lífsins og endalok
Fæðing, tilurð manneskjunnar sem og endalok lífsins er viðfangsefni fleiri en einnar ljóðabókar sem koma út í ár. Í einni áhugaverðustu ljóðabók ársins, Okfrumunni, sem er fyrsta ljóðabók Brynju Hjálmsdóttur (f. 1992), lýsir höfundur tilurð manneskju frá okfrumu; fyrstu frumunni sem verður til við samruna eggs og sæðisfrumu og deilist síðan í sífellt í fleiri, „hrannast upp / iðandi eins og maðkar“ þar til barnið er orðið fullburða og fæðist. Í ljóðunum er síðan fylgt þroskaferli stúlku í gegnum bernsku og unglingsár, fram á fullorðinsár. Lýst er hvernig persónuleikinn verður til í gegnum leiki og lærdóma, sorgir og þungsinni. Lífið er ekki auðvelt: „Okfruma er ekki ávísun / á líf // heldur fáránlegur gúmmítékki // fyrsta fruman / fremsta okið“. Leiðarstefið sem fylgir þroskaferli stúlkunnar er ævintýrið um hinn brögðótta Grámann í Garðshorni sem „læst vera kjöt og bein“ í poka og tekst með því að plata og koma sér úr vandræðum. Vísanir í söguna af Grámanni koma fyrir á nokkrum stöðum og gefa ljóðunum stundum óhugnanlegan tón:
Þú ert beinagrindin sem heldur uppi þessu slímuga farsi
Þú ert görnin sem mótar mig í lystuga pylsu
án þín væri ég ekkert
nema kjöt og bein í poka
Inn á milli ljóðanna eru teikningar eftir höfundinn sem sýna ýmis tilbrigði við okfrumur og myndast skemmtilegt samspil á milli ljóðanna og teikninganna. Það hefur færst í aukana að myndskreyta ljóðabækur og styðja þá myndirnar við ljóðmálið á einn eða annan þátt. Þetta má til að mynda sjá í Mislægum gatnamótum Þórdísar Gísladóttur sem og Undrarými eftir Sigurlínu Bjarneyju Gísladóttur, eins og áður er getið.
Harpa Rún Kristjánsdóttir (f. 1990) hlaut Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar fyrir fyrstu ljóðabók sína, Eddu. Þar er ort um ættartengsl og spinnast saman fæðing og dauði innan sömu fjölskyldunnar, ort er um barn sem er „að hefja leik“ og gamla konu sem „nálgast lokin“: „Milli ykkar liggur líflína / spunnin úr blóðböndum / tvítogi / vinarþeli“. Harpa Rún bregður upp myndum af fyrstu þroskasporum stúlkunnar og síðustu stundum gömlu konunnar. Inn á milli er ort um atvik úr langri ævi, um hvernig minningar verða til og hverfa. Þetta eru hlý ljóð sem miðla kærleika og söknuði í átakalitlu ljóðmáli.
Fæðingar, dauði, sorg og söknuður er einnig grundvallarstef í fyrstu ljóðabók Hönnu Óladóttur (f. 1968), Stökkbrigði. Þar er ort um illskiljanlega og sára reynslu af barnsmissi sem skáldið reyndi tvisvar þegar „heimurinn hrundi [...] / bæði 2000 / og 2001“. Titill bókarinnar vísar til stökkbrigða í genum: „Í innsta kjarna / leyndist / mein // sem aldrei framar / verður leyst úr læðingi // Enginn getur erft það“. Hanna miðlar af einlægni og með áhrifaríkum myndum lamandi sorginni og grimmri sektarkenndinni sem á upptök í eigin brjósti og þarf að yfirvinna til að hægt sé að halda áfram. Síðustu ljóð bókarinnar benda til að einhvers konar sátt sé náð og leiðin framundan liggi „inn í gleðina / kærleikann / kraftinn“.
Ég og þú – sjálfsmynd og sambönd
Þótt nýju ljóðabækur Kristínar Eiríksdóttur (f. 1981), Kærastinn er rjóður, og Fríðu Ísberg (f. 1992), Leðurjakkaveður, séu að mörgu leyti mjög ólíkar er gildur þráður sem tengir þær saman. Í báðum bókunum er kafað undir yfirborð sjálfsins og reynt að komast handan þeirra gríma sem einstaklingar fela sig á bak við á sviði veruleikans. Leðurjakkinn í titli bókar Fríðu vísar til ysta lagsins sem manneskjan klæðist og felur sig á bak við og það er engin tilviljun að í byrjun bókarinnar er vísað í ljóð eftir Kristínu Eiríksdóttur þar sem segir: „þú varst í svörtum jakka / og ég klæddi þig úr / og ég klæddi þig úr / og undir svarta jakkanum / varstu í svörtum jakka“. Í ljóðum beggja skáldanna er leitast við að fletta lögunum af sjálfinu til að komast að einhverjum kjarna. Speglar – hefðbundin tákn sjálfmyndar – eru fyrirferðarmiklir í ljóðum Fríðu, þar er bent á að spegillinn á sér aðeins eitt samheiti, skuggsjá: „spegill dregur í sig skugga og endurvarpar ljósi“. Þar segir líka „skuggi er ljós- eða birtuskortur“ og „skuggi er sorg, hryggð, efi“.
Fríða vill draga fram hryggðina og efann og varpa ljósi á þessa þætti sjálfsins. Orðið „berskjöldun“ hefur verið notað um það af afhjúpa og lýsa upp skugga sjálfsins og draga fram hversu viðkvæm manneskjan er. Þótt orðið komi ekki fyrir í bókum Fríðu og Kristínar má vel nota það til að lýsa aðferð beggja. Skemmtilegt er hvernig Fríða vísar til skrifanna sjálfra sem aðferð slíkrar berskjöldunar: „pappírinn sem dregur í sig / ógæfuna // þessi pappír hérna // dregur hana í sig / eða dregur hana fram“; í gegnum skrifin á pappírnum má horfa á „sársaukann / rifja sig upp / innanverðan brjóstkassann“, sem er einstaklega vel orðað. Kristín rifjar líka upp sársauka með því að rýna í ástarsambönd ljóðmælanda við marga kærasta, eða kannski bara einn kærasta, og veltir þar upp ýmsum flötum tilfinninga ástar, höfnunar og grímuleiks. Þessar tvær bækur þarf að lesa endurtekið til að merkingin opnist fyrir lesandann; þær eru marglaga eins og sjálfið og oft þarf að fletta – og fletta utanaf orðunum – vilji lesandinn komast að nöktu sjálfinu.
Það má vera ljóst að íslensk ljóðlist stendur í miklum blóma um þessar mundir og efniviður ljóðabóka ársins er fjölbreytilegur eins og þessi stutta innsýn inn í nokkrar bókanna gefur til kynna. Lesendur eru hvattir til að kafa í jólaljóðabókaflóðið; ljóðalestur er ein besta núvitundaræfing sem í boði er.